Færsluflokkur: Lögregludagbók

Lögregludagbók

Lögreglan á Stokkseyri

30.03.2008 

Það má með sanni segja að dagurinn hafi byrjað með miklu fjöri! Klukkan 07:00 barst lögreglu símhringing frá Hásteinsvegi 31. Djásn heimilisins, fuglinn Gabrielle hafði sloppið úr búri sínu og út um glugga. Húsmóðirin á handahlaupum á eftir gullinu sínu og heimilisfaðirinn þungur á brún. Bíll númer 1 var sendur í leitir og klukkutíma síðar tókst að góma dýrið. Gabrielle varð ekki meint af útiverunni og andar nú húsfreyjan léttar nú þegar fuglinn er kominn á sinn stað.

Klukkan 10:30 þegar bíll 1 var í sinni eftirlitsferð um eyrina sást til tveggja mann stumrandi yfir einhverju á bryggjunni. Reyndust þetta vera bræður tveir frá Garði að reyna að losa álft sem flækst hafði í neti rétt við bryggjuna. Álftin losnaði fljótt og varð ekki meint af. Bræðurnir verða sæmdir orðu frá hrútavinafélaginu næstkomandi sunnudag með mikilli athöfn í menningarverstöðinni.

Um hádegi var framið rán í sjoppunni. Aðkomufólk á skoda, árgerð 1982 hótaði afgreiðsludömu og hafði með sér talsvert magn af tóbaki og um 3000 krónur í reiðufé. Þau náðust við hraunsá þar sem þau voru færð í járn og flutt beinustu leið í klefa. Afgreiðsludaman fékk áfallahjálp og var send heim í klukkutíma og klára hún svo sína vakt.

Klukkan 14:08 barst lögreglu tilkynning um mikinn hávaða frá Þuríðarbúð. Þar var landskunnur skemmtikraftur búinn að koma sé fyrir og var á kojufylleríi og hafði með sér litlar ferðagræjur. Um var að ræða hinn sí káta Gylfi Ægisson. Hann tjáði lögreglu að síðasta platan sín hefði ekki selt vel og hefði hann því komið á Stokkseyri til að fá innblástur fyrir næstu plötu sína. Hann sagði einnig að hann hefði ekki fengið gistipláss neins staðar í plássinu. Lögreglumaður benti honum á Kvöldstjörnuna, og fylgdi honum þangað.

Á fimmtándatímanum kom glæsikerra í þorpið. Allir helstu rúntarar bæjarins veittu bílnum athygli og veittu eftirför. Fóru mjög fínt í það. Bílinn stöðvaðist svo við Hólmaröst. Út úr bílnum steig enginn annar en Bobby Mcferrin. Fyrir algera tilviljun var húsmóðir á Hásteinsveginum að keyra framhjá og rak augun í goðið. Bílinn hennar skensaði í hálfhring og hvarf í reykjarmekki. Lífverðir listamannsins fóru í bardagastöðu og biðu eftir að húsmóðirin kæmi úr reykjarmekkinum á örðu hundraðinu. Húsfreyjan náði að hemja sig og ekki kom til átaka. Bobby spjallaði mikið og lengi við hana. Eiginhandarárritun fékk hún og einnig gaf hann henni eitt málverk frá Elvari.

Klukkan 15:54 sá lögregla nokkra útlendina fyrir utan Eyrarfisk. Þeir voru að mótmæla háu verði á harðfiski og héldu á spjöldum með áletrun sem lögreglumaður skildi ekki. Mótmælin fóru friðsamlega fram. Lögreglan rak fólkið í burtu vandræðalaust. Næsti staður sem fólkið ætlaði á var sjoppan.

Lögreglunni barst enn ein hávaðakvörtunin. Það var um kvöldmataleytið. Piparsveinninn á Ólafsvöllum 7 var að vígja nýju hátalarana sem hann var nýbúinn að kaupa sér. Bíll númer 1 var sendur á staðinn. Húsráðandi varð við bón lögreglunnar um að lækka og bauð um leið upp á kaffi bakkelsi. Fékk hann áminningu í þetta skiptið.

Mikill hópur fólks kom á stórum trukkum í þorpið laust eftir átta. Var um að ræða tökulið. Standa nú yfir tökur á rammíslenskri sjóara mynd sem er að mestu leyti tekin upp á Jóni á hofi. Tekið var viðtal við manninn sem kenndur er við Færeyjar og ungan svein. Þess má geta að hrútavinafélagið hefur nú þegar sæmt þá sérstakri heiðursorðu.

Áflog brutust út í sjoppunni rétt fyrir lokun þegar tveir viðskiptavinir ætluðu báðir að ná síðustu léttmjólkinni. Afgreiðsludaman brást við og tilkynnti þetta mikla sjónarspil. Bíll 1 var sendur á staðinn til að skakka leikinn. Til að gæta sanngirni fékk hvorugur mjólkurpottinn góða.

Fleira taldist ekki til tíðinda þennan daginn og verður hann hafður lengi í minnum sökum mikilla anna.


Lögregludagbók

Lögreglan í Papey

12.03.2008

 

Dallur AE 56 sigldi umhverfis eyjuna klukkan 13:00. Allt með kyrrum kjörum. Vakthafandi lögreglumaður varð var við mannaferðrið í nánd við vitann. Varði vitavörður kom í eyjuna í gær til að dytta að hinum ýmsu hlutum sem ekki voru í lagi. Ljós var í bænum Bjarg og léttur reykur steig upp úr skorsteininum. Katla Grenz var einnig komin í sitt litla kot, þar sem hún mun eyða sumrinu.

Klukkan 17:00 var farið í aðra eftirlitsferð. Lögreglumaður varð var við að hópur fólks hafði safnast saman uppi klettinum Kastala. Það virtist vera að tilbiðja eitthvað. Lögreglumaður sigldi að eyjunni og fór upp á klettinn til að athuga málið. Forsvari hópsins sagði að þau væru að bíða eftir sendingu frá geimnum, frá plánetunni Ópal. Pakkinn átti að innihalda vökva sem veitir fólki eilíft líf. Lögreglumaðurinn bað hópinn vinsamlegast um að hafa ekki hátt, til að raska ekki ró huldufólksins.

Varði vitavörður sá til lögreglumannsins og hóaði í hann, bauð honum upp á kaffi og kandís. Þeir röbbuðu saman í dágóða stund um ástand vitans og frístundaíbúa eyjarinnar. Lögreglumanni varð bumbult af kaffiþambi og kandís að hann lauk störfum þennan dag og lagðist undir feld ánægður með dagsverkið.

 


Lögregludagbók

Lögreglan á Eskifirði

23.02.2008

 Allt með kyrrum kjörum snemma morguns. Klukkan 9:06 hringdi sími stöðvarinnar. Áflog brutust út á elliheimili bæjarins. Tveir vistmenn, karlar, voru að deila um hvor þeirra hefði fundið upp pípuna. Starfsstúlkur réðu ekki neitt við neitt. Vakthafandi lögreglumaður fór á vettvang til að skakka leikinn. Þegar lögreglumaður kom á staðinn hafði nú hamagangurinn gengið að mestu niður, báðir vistmenn örmagna af þreytu og búnir að sættast. Enginn meiðsli hlutust af átökunum.

Um 12:54 barst lögreglu tilkynning um að brotist hefði verið inn í reykhús Trausta trétáar. Bíll númer eitt var sendur á staðinn. Í ljós kom að sértrúarsöfnuður hafði komið sér vel fyrir í húsinu og iðkaði sína trú.

Það kom fát á söfnuðinn þegar lögreglan barði að dyrum og hleypti sér sjálf inn. Trúarleiðtoginn, sem talaði litla íslensku reyndi að útskýra fyrir lögreglumanni hvers vegna þau væru þarna, hefðu ekki neina aðstöðu til að iðka sína trú. Lögreglumaðurinn bað þau vinsamlegast að pakka saman og fara – helst úr umdæmi lögreglunnar.Söfnuðurinn fór.

Á fjórtánda tímanum hringdi Jónas frá Haughúsum og tilkynnti hóp fólks hefði komið sér fyrir í hlöðunni. Allur bílfloti sveitarinn var sendur af stað, bíll 1 og 2. Með í för hafði lögregla piparúða og barefli.En allt fór friðsamlega fram og hópurinn sendur með næstu ferð Norrænu. Enginn var handtekinn.

Átök voru tilkynnt í kjörbúð bæjarins. Ungmennafélagið var með kökubasar í búðinni. Kata og Þrúður voru ósáttar með hvað Salvör vildi verðleggja kökurnar hátt. Salvör sló til Þrúðar sem náði að víkja undan hnefanum en ekki vildi betur til en Kata tók við högginu með þeim afleiðingum að hún varð óvíg. Lögreglan flutti hana til aðhlynningar á heilsugæslu bæjarins. Hún hlaut heilahristing er fékk að fara heim samdægurs. Ekki fylgir sögunni hvort hún hafi fyrirgefið Salvöru.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.


Lögregludagbók

Lögreglan í Svarfaðardal

05.02.2008

Neyðarkall barst  frá Skíðadal á tíunda tímanum. Tveir ungir menn voru að leik á vélsleða er annar þeirra féll ofan í sprungu. Lögreglan var fljót á svæðið og hafði meðferðis læknir dalsins, Bakkus Brjáns. Sá sem féll í sprunguna var lítið slasaður og gat Bakkus læknir búið að sárum hans á staðnum. Þar sem lögreglubíll sveitarinnar var fullur af drasli var ekki unnt að flytja sjúklinginn til byggða. Hann komst svo til byggða með félaga sínum, sem tvímenntu á sleðanum.

Um 14:00 varð uppi fótur og fit á lögreglustöðinni. Hópur kvenna úr saumaklúbbinum Tryllti tvinninn var í fyllerísferð um dalinn og var með óspektir á almannafæri, og gerðust brotlegar á lögreglusamþykkt um þvaglosun utandyra. Tvær voru sektaðar. Klúbbnum var vísað úr bænum og vinsamlegast beiðinn um að koma ekki saman aftur.

Mikil hávaði barst frá Kirkjustaðnum Urðum. Þar voru að verka nokkrir krakkar, að leika sér með gamla flugelda. Mildi þykir að enginn slasaðist þar sem þau voru einnig með heimatilbúnar sprengjur. Þeim var skutlað tveimur saman í einu heim til sín, því enn var ekki búið að taka til draslið í lögreglubifreiðinni.

Klukkan 19:03 heyrði  vakthafandi lögreglumaður mikinn óperusöng fyrir utan glugga. Þegar betur var að gáð kom í ljós að söngstjarna dalsins, Solla söngkona, væri að brýna raust sína til að mótmæla brottrekstri saumaklúbbsins fyrr um daginn. Söngkonunni var fylgt heim til sín, og var megn áfengisstækja af henni.

 Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn. 

 


Lögregludagbók

Lögreglan í Hrísey

29.01.2008

Þetta mun hafa verið síðast dagur Guttorms Gráa sem lögregluþjónn. Hann starfaði sleitulaust í sveitinni í hart nær 40 ár. Eyjaskeggjar héldu honum til heiðurs heljarinnar veislu í félagsheimilinu Sæborgu með dýrindis bakkelsi og tilheyrandi. – Hljómsveit eyjarinnar, Hríseyjarstuðkompaníið sá um að halda upp stuðinu eftir borðhald og þóttist taka vel til. Ölvun var talsverð og þurfti þrívegis að fá kalla á lögregluna, sem var eins og gefur að skilja ekki langt undan.

Björn á austurvegi var hampað fyrir framlag sitt til gatnagerðamála, fyrir hans tilstilli er nú búið að helluleggja allar helstu gönguleiðir eyjarinnar. Í þakklætisvott fékk hann farandbikar eyjarinnar, Hríseyinginn. En hann er einungis veittur einu sinni á tveggja ára fresti.

Dagurinn byrjaði annars rólega hjá lögreglunni. Ferjan tilkynnti þó um hádegi að um borð væri suðdrukkinn þjóðverji sem væri með uppsteyt. Höttur Heist fór að bryggju og beið eftir ferjunni. Þegar hún kom að landi var þjóðverjinn í annarlegu ástandi sökum áfengisvímu og var sofandi. Samferðafólk hans baðst innilegrar afsökunar og sagðist ætla að koma honum í snarhasti svefnpoka þegar þau hefði slegið upp tjaldbúðum.

Um þrjú fékk lögreglan tilkynningu um áhugasaman fuglaskoðara sem var kominn í sjálfheldu við klappir eyjarinnar. Var hann að mynda fugla og gætti ekki að sér þegar fór að flæða að. Höttur fór í sitt annað útkall þennan dag og kom ógæfusama manninum til bjargar. Að launum fékk hann koss á kinnina.

Laust eftir kvöldmatarleitið var lögreglan beðin um að koma að Brekku, veitingastað eyjarinnar. Þar hafði sami þjóðverjinn og fyrr um daginn brotið allt og bramlað í salernisaðstöðu karla. Ingvi Trukk tók að sér þetta útkall á meðan Höttur horfði á endursýndan þátt á Skjá 1, sem Hríseyingar hafa nýlega komist í tengingu við. Þjóðverjinn var færðu í járn og hann vistaður í fangaklefa stöðvarinnar og látinn sofa úr sér, samferðafólki til mikillar ánægju.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn í Hrísey.


Lögregludagbók

Lögreglan á Breiðdalsvík

17.01.2008

Dagurinn byrjaði vægast sagt illa. Bárður varðstjóri snéri sig á ökkla og þurfti að hverfa frá vinnu. Sveitin sendir batakveðjur og tvö hangilæri, taðreikt að sjálfsögðu.

Klukkan 9 um morguninn barst lögreglu bréf. Bréfið var sent frá Jónda bónda í Gilsá. Tjáði hann lögreglunni að strokukind hefði komið sér vel fyrir á hlaði bæjarins og vildi ekki færa sig - sagði að hún væri að setja allt á annan endann og bað um að hún yrði fjarlægð í snarhasti. Bíll númer 1 var sendur á staðinn, hafði í eftirdragi kerru sem lögreglan fékk lánaða frá Ingibjörgu í Sælingsgarði gegn því að fá hjálp í næsta heyskap.

Á tíunda tímanum, þegar Hörður Ólíver var að leggja kapal strunsaði inn og sagðist heimta að fá að tala við varðstjórann. Vakthafandi lögreglumaður sagði að varðstjórinn væri ekki við, hefði skroppið norður í land til að hitta aldraðan bróður sinn sem var víst að farast úr einhverjum óþektum kynsjúkdómi. Herði var brugðið og hrökklaðist út og skellti á eftir sér.

Klukkan 16:06 kom Setta frá Ásvegi 15 með afmælisköku á stöðina, lögreglumaður 55567, Jörundur Taðskegg átti 50 ára afmæli. Kökunni var tekið fagnandi og var hún borðuð með bestu list og henni rennt niður með spenvolgri geitamjólk. Settu var skutlað heim til sín er veislunni lauk á bíl númer 2 og var hún mjög þakklát - ,,þið eruð öðlingar drengir mínir,,

Símtal barst stöðinni á klukkan 21:15 frá Hótel Bláfelli, aðkomumaður var með dólgslæti i lobbíinu og neitaði að fara nema að hann fengi gistingu. Hótelstjórinn var ekki á þeim buxunum að leyfa manninum að gista og hringdi því í lögregluna sem skaffaði honum rúm, í klefa númer 2. Málinu lokað og mun hótelstjórinn ekki hafa lagt fram formlega kæru.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.


,,Ekkert brauð með osti?!?,,

Gleðilegt nýtt ár allir saman!

Fyrsta færslan á árinu. Gaman af því. Þegar ég var yngri man ég að alltaf á nýju ári var maður endalaust að segja , hey. Þetta er í fyrsta skipti sem ég geri þetta á þessu ári….eða….það er bara ár síðan ég gerði þetta síðast…….
Ég hafði það mjög gott yfir jólin og áramótin. Var með smá party á áramótunum. Svaka stuð.

Nú þegar sófinn er kominn inn í stofu finnst mér ég loksins vera búinn að koma mér fyrir í litlu íbúðinni minni. Bölvað jólatréið er í horninu og ég hlakka til að koma því í kvíld fyrir næstu jól – verð nú reyndar að viðurkenna að það er þægileg birtan sem kemur af því á kvöldin. Jájá. En hvernig værir að fá eins og eina lögregludagbók á nýja árinu? Sú fyrsta á þessu ári :o) – já….ég á erfitt með að hætta með þetta!

Lögregludagbók
02.01.08

Lögreglan í Kópavogi

Fyrsti dagur ársinns fór vel fram. Fólk almennt undir fiðri þann dag og ekki tilbúið til að hafa lífskapphlaupið alveg stax. Vísareikningurinn er væntanlega ofarlega í huganum. Klukkan átta um morguninn barst lögreglu símtal frá eldriborgara sem bjó í Keldulandinu. Villiköttur hafði komið sér vel fyrir í uppáhalds stól húsbóndans og sat þar og hvæsti þegar reynt var að nálgast hann. Bíll númer 4 var sendur á staðinn.
Aðkoman var ljót. Sá gamli þoldi ekki lengur við og var búinn að henda sér á köttinn og sat á honum. Aðeins höfuð og hægri framfótur stóðu undan botni gamla mannsinns.
Lögreglumenn tóku upp gamla manninn og fjarlægðu vankaða köttinn sem þeir fóru með til dýralæknis. Sá gamli fékk tiltal um illa meðferð á dýrum en slapp með skrekkinn í þetta skiptið.

Um tólf sendi bíll 3 frá sér tilkynningu um að nokkur ungmenni væru að gera sér það að leik að kasta snjóboltum í gangandi vegfarendur – ekki við mikinn fögnuð þeirra. Lögreglumaður númer 364 (Snjólfur Júlíus) steig út úr bílnum og gekk í átt að hópnum. Einn úr hópnum lét alla hina vita í hvað stefndi og tvístraðist hópurinn. Ógerlegt var fyrir lögregluna að ná nokkrum og fór Snjólfur með skottið á milli lappana aftur inn í bíl. 5 mín. Síðar kom einn snjóbolti á urrandi siglingu og small í framrúðunni. Miði hafði verið vafinn inn í boltan og á honum stóð : ,,farið heim til ykkar kleinuhringjaæturnar ykkar!,,

Tíðindalaust var til klukkan sex, eða þangað til að óreglumaður staulaðist inn á stöðina og sagðist vera að leyta að Hitler og Kristjáni Ólafssyni. Sá sem stóð vaktina á stöðinni ákvað að spila aðeins með þann fulla og bað hann um fylgja sér smá spöl, sagði að þeir væri að spjalla niðri í kjallara. Róninn fylgdi – spenntur. Gleðin varði ekki lengi og hvarf alveg þegar hann áttaði sig á því að hann var læstur inni í fangaklefa.

Klukkan átta um kvöldð var komið að hinu árlega lögreglubingói. Var það að þessu sinni haldið í Salnum. Að vanda voru vinnar ekki af verri endanum og aðal vinningurinn var ferð fyrir 4 til Kúbu með uppihaldi. Bolli Klængs vann stóra vinningin að þessu sinni. Eina konan í lögreglunni ( Ingveldur) vann árs byrgðir af Stjörnusnakki.
Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.


Lögregludagbók

Lögreglan í Berufirði

20.12.2007

Það er óhætt að segja að löggæslustöðin er orðin jólaleg. Ketill Lars lögreglumaður sat og föndraði músastiga ásamt syni sínum Bolla. Verðrið var ekki upp á marga fiska og hafði ofninn verið stilltur í hæstu hæðir, engu til sparaði í kyndingu á þeim bænum.
Þeir feðgar spjölluðu um daginn og veginn og drukku flóaða mjólk og lögðu sér til munns smákökur sem Hildur í Fossárvík hafði bakað.

Snjólfur frá Skafti hringdi á stöðina um 12:00. Hann var að tefla á veraldarvefnum við Litháa og var í stökustu vandræðum, vissi ekki hvað leik hann ætli að leika. Það vill svo skemmtilega til að Ketill lögreglumaður var vel að sér í skák og sagðist bara hafa gaman af því að kíkja í heimsókn en tók fram að hann væri ekki maður einsamall. Snjólfur vissi hver yrði með í för þannig að hann fann til nokkur Andrésar andar blöð sem  hann gaukaði að stráknum. Þegar lögreglumaður kom  á staðinn hafði Snjólfur leikið vondan leik og var mátaður, sagðist ekki hafa haft þolinmæði i að bíða – bauð bakkelsi  og með því.

Eftir mikið kaffiþamb hjá Snjólfi fóru þeir feðgar aftur á stöðina. En á leiðinni þangað komu þeir að kind sem var að bera. Bolla leist ekkert á blikuna og bað um að fá að vera í bílnum meðan faðirinn færi og aðstoðaði kindina sem virtist vera kvalin. Fæðingin gekk vel og heilsast ær og lambi vel.

Þegar á stöðina var  komið hengdu feðgarnir í sameiningu upp músastigana og settu seríur í gluggana. Ketill settist niður og fletti mogganum spjaldanna á milli á meðan Bolli hlustaði á Vitann. Hann hafði gaman af honum.

Klukkan 18:42 keyrði létt bifhjól á ljósastaur fyrir utan stöðina. Ljósastaurinn bognaði talsvert og slokknaði ljós hans. Sá sem hjólinu ók kastaðist af því og lenti rétt við dyrnar. Bolli stökk út og fór að hlæja og benda. Ketill kom rólegur að slysstað og hlúði að manninum. Hann talaði ekki íslensku en Ketill hjálpaði honum á fætur og keyrði hann á  heilsugæslustöðina.

Það sem eftir lifði vaktarinn hlustaði Ketill á Bjartmar Guðlaugsson – Týnda kynslóðin er hans uppáhaldslag. Bolli söng dátt með eða þangað til að móðir hans, Pálína kom og sótti hann. Ketill fór skömmu seinna heim eða þegar Runólfur kom til að leysa hann af.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn í Berufirði.


Lögregludagbók

Lögreglan í Vöðlavík

07.12.2007

Undarleg óhljóð bárust frá kjallara stöðvarinnar um 06:30. Sófus, vakthafandi lögreglumaður fór niður til kanna aðstæður. Sá hann sér til mikillar undrunar að gömul kona hafði hreiðrað um sig í einu horninu í pappakassa. Sú gamla var mikið veik og hóstaði heil lifandi ósköp. Lögreglumanni leist ekkert á blikuna og þaut rakleiðis með hana heim til Óttars læknis sem bjó á Reyðarfirði. Færðin var ekki góð en hafði gamli Skoutinn það, með herkjum þó. Ekki er vitað hvað amaði að gömlu konunni.

Um 13:00 barst lögreglu tilkynning um mann sem var með dólgslæti og sýndi nekt á almannafæri við fjallsrætur Snæfugls. Bíll númer 2 var sendur á staðinn og maðurinn sveipaður þykku teppi og færður í fangageymslu þar sem hann var látinn sofa úr sér. Hann fékk að fara morguninn eftir, í fullum klæðum. Dólgurinn kastaði kveðju til Runólfs, sem var víst í klefanum við hliðina. Kveðjan komst ekki til skila.

Hin árlega Vöðlavíkurhátíð var haldin þennan dag eða um 17:00. Mætingin var 100% eða 14 manns. Þóttist hátíðin takast með prýði og voru allir sammála um að hún hefði verið sú besta. Ýmsir skemmtikraftar stigu á stokk, meðal annars hljómsveitin ástarmök og hin sívinsælu Vöðlavíkurbræður - sem trylltu lýðinn á dansleik um kvöldið. Dansleikurinn fór friðsamlega fram. Gvendur stóð við barinn og skenkti í glös gesta ákavíti og gaf með því harðfisk. Vakthafandi lögreglumaður dottaði eylítið á vaktinni en það kom ekki að sök. Einn gestanna var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt er hann kastaði af sér vatni á lögreglubifreiðina.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.


Lögregludagbók

Lögreglan í Gilsfirði

04.12.2007

Dagurinn byrjaði með rifrildi vakthafandi lögreglumanna.  Upp kom ágreiningur um hvort væri betra að vera örvhentur eða rétthentur. Engin niðurstaða fékkst í málinu en þeir lokuðu umræðinni með sjómann. Sá rétthenti vann.

Á tíunda tímanum bankaði ung stúlka á dyr stöðvarinnar. Hafði hún meðferðis í lítilli lyftiduftsdollu 3 sandlóu egg sem henni var annt um að koma á ofn í hlýju. Vakthafandi lögreglumaður brosti breitt og tók fús við eggjunum og sagðist ætla að gæta þeirra vel og sú litla gæti fengið að koma reglulega til að fylgjast með gangi mála. Vakthafandi lögreglumaður gaukaði að henni endurskinsmerki og glitauga.

Um hádegi hringdi síminn á stöðinni. Það var Guttormur á Grænalæk. Átti hann í stökustu vandræðum með ISDN línuna sína, sagði að allt væri í tómu voli og hann þyrfti á aðstoð að halda undir eins. Lögreglumaður tjáði honum að þetta væri alls ekki í verkahring lögreglunnar og bað hann vinsamlegast að hætta að sólunda tíma lögreglunnar í óþarfa bull.

Olga frá Saurbæ staulaðist rallfull inn á stöð og bað um heitan grjónagraut, því hún kvaðst hafa fundið lykt af slíkri dásemd frá götunni. Grjónagraut fékk hún ekki en í staðinn var henni úthlutað hlýju rúmi í klefa til að lúra í. Hún yfir gaf stöðina snemma í morgunn, heilsutæp þó. Bíll 1 var fenginn til að transporta henni heim í hlað, restina af leiðinni þurfti hún fara fótgangandi.

Um 19:00 pöntuðu vakthafandi lögreglumenn flatböku frá Unni á Stapa. Flatbakan var greidd úr dósasjóð stöðvarinnar, og allt vandlega skráð í þar til gerða ráðstöfunarbók fyrir dósasjóðinn.  Fatbakan var gómsæt og mettandi. Unnur kom sjálf með veigarnar á gömlum Fíat, sennilega árgerð '55 - eða 56'. Benti vakthafandi lögreglumaður Unni á að önnur framluktin var í lamasessi. Þakkaði Unnur fyrir vinsamlega ábendingu og kvaðst ætla að bæta það í snarhasti.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.

PS. þess má geta að hægt er að lesa brot úr síðustu dagbók í mogganum í dag W00t


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband