Lögregludagbók

Lögreglan í Berufirði

20.12.2007

Það er óhætt að segja að löggæslustöðin er orðin jólaleg. Ketill Lars lögreglumaður sat og föndraði músastiga ásamt syni sínum Bolla. Verðrið var ekki upp á marga fiska og hafði ofninn verið stilltur í hæstu hæðir, engu til sparaði í kyndingu á þeim bænum.
Þeir feðgar spjölluðu um daginn og veginn og drukku flóaða mjólk og lögðu sér til munns smákökur sem Hildur í Fossárvík hafði bakað.

Snjólfur frá Skafti hringdi á stöðina um 12:00. Hann var að tefla á veraldarvefnum við Litháa og var í stökustu vandræðum, vissi ekki hvað leik hann ætli að leika. Það vill svo skemmtilega til að Ketill lögreglumaður var vel að sér í skák og sagðist bara hafa gaman af því að kíkja í heimsókn en tók fram að hann væri ekki maður einsamall. Snjólfur vissi hver yrði með í för þannig að hann fann til nokkur Andrésar andar blöð sem  hann gaukaði að stráknum. Þegar lögreglumaður kom  á staðinn hafði Snjólfur leikið vondan leik og var mátaður, sagðist ekki hafa haft þolinmæði i að bíða – bauð bakkelsi  og með því.

Eftir mikið kaffiþamb hjá Snjólfi fóru þeir feðgar aftur á stöðina. En á leiðinni þangað komu þeir að kind sem var að bera. Bolla leist ekkert á blikuna og bað um að fá að vera í bílnum meðan faðirinn færi og aðstoðaði kindina sem virtist vera kvalin. Fæðingin gekk vel og heilsast ær og lambi vel.

Þegar á stöðina var  komið hengdu feðgarnir í sameiningu upp músastigana og settu seríur í gluggana. Ketill settist niður og fletti mogganum spjaldanna á milli á meðan Bolli hlustaði á Vitann. Hann hafði gaman af honum.

Klukkan 18:42 keyrði létt bifhjól á ljósastaur fyrir utan stöðina. Ljósastaurinn bognaði talsvert og slokknaði ljós hans. Sá sem hjólinu ók kastaðist af því og lenti rétt við dyrnar. Bolli stökk út og fór að hlæja og benda. Ketill kom rólegur að slysstað og hlúði að manninum. Hann talaði ekki íslensku en Ketill hjálpaði honum á fætur og keyrði hann á  heilsugæslustöðina.

Það sem eftir lifði vaktarinn hlustaði Ketill á Bjartmar Guðlaugsson – Týnda kynslóðin er hans uppáhaldslag. Bolli söng dátt með eða þangað til að móðir hans, Pálína kom og sótti hann. Ketill fór skömmu seinna heim eða þegar Runólfur kom til að leysa hann af.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn í Berufirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

ahhh jólastemningin eins og hún gerist best á löggæslustöðinni í Berufirði...

i like it...!

Guðríður Pétursdóttir, 21.12.2007 kl. 20:40

2 Smámynd: Vignir

Vignir, 21.12.2007 kl. 20:55

3 identicon

Alltaf góður frændi jóla stemmingin svífur yfir vötnunum.

ingo (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband