Færsluflokkur: Lögregludagbók

Lögregludagbók

Lögregluembættið í  Bleiksmýrardal

03.12.2007

Síðustu 2 mánuði hafði enginn sinnt löggæslu í þessu umdæmi. Það ástand var ekki látið viðgangast og fenginn var löggæslumaður frá Fnjóskadal. Tíðindalaust var bróðurpartinn af deginum. Einstaka bíll keyrði framhjá lögreglustöðinni. Um 16:00 staðnæmdist bíll við stöðina, ökumaður bifreiðarinnar hafði villst af leið og talaði ekki góða íslensku. Lögreglumaðurinn taldi það meira en líklegt að um Norðlending væri að ræða og sýndi honum fullan skilning.

Á sjötta tímanum var samkoma í félagsheimili. Kjósa átti í nýja bæjarstjórn. Loki frá Illugastöðum bauð sig fram í annað skiptið og var kjörinn bæjarstjóri. Eiríkur Laufdal fékk einungis 6 atkvæði. Engar óspektir voru á kjörstað og fór allt friðsamlega fram.  Vakthafandi lögreglumaður raðaði í sig bakkelsi og kruðeríi með bestu lyst og fékk með sér á stöðina 5 sykraðar pönnukökur og kaffi á brúsa.

Kýrin Huppa tók upp á því að bera um kvöldmatarleytið. Bóndinn á bænum Holti var í bændaferð með húsfreyju sinni og var ungur maður fenginn til að sjá um búið. Var hann í stökustu vandræðum með taka á móti kálfinum og bað um aðstoð lögreglunnar. Það var lán að vakthafandi lögreglumaður var mikið í sveit á sínum yngri árum og kunni upp á hár hvernig ætti að bera sig að. Heilsast kálfi og kusu vel. Lögreglumaður vígði sturtuaðstöðu stöðvarinnar að athöfn lokinni. Setti út á hve lélegt vatnsrennslið var.

Um 21:00 snaraði vakthafandi lögreglumaður upp seríu á stöðina og eins seríu setti hann í glugga. Stakk sig á teiknibólu og gerði að sárum sínum samviskusamlega. Telur hann líklegt að sárið muni gróa vel.

 Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.

 


Lögregludagbók

Lögreglan á Hólmavík

29.11.2007

 Þeysireið hestamannafélagsins Bikkjan fór friðsamlega fram. Lítið var um ölvun þetta árið en þó mátti finna inn á milli nokkra sauðdrukkna vesaling sem náði að halda sér á baki með að fylgja hreyfingum hestsins. Lögreglan var með mikinn viðbúnað og fylgdi eini bíll sveitarinnar stóðinu eftir með miklum sóma. Fékk lögreglumaður sérstaka þjálfun í að keyra í návígi hesta. Nokkuð var um að hestamenn buðu lögreglumanni gráan.

Tíðindalaust var til 15:00 eða þangað til að lögreglan var kölluð að samkomuhúsi bæjarins. Hafði þar safnast saman hópur af erlendum ferðamönnum sem hafði villst af leið sinni til Hermannslundar í fuglaskoðun. Voru þeir ansi æstir og pirraðir og gerðu aðsúg að lögreglumanni sem kom á vetfang. Fararstjórinn var hvergi sjáanlegur en talið er víst hann hafi einni villst frá hópnum á undraverðan hátt. Ekki náðist í hann en lögreglan útvega lítinn kálf fyrir viltu ferðamennina. Húsvörður heimilisins vissi ekki hvað var um að vera og gat ekki tjáð sig við ferðamennina sökum slakrar kunnáttu í sænsku.

Einn af sérvitringum bæjarins hringdi inn á stöð á sjöunda tímanum og kvaðst sjá grænar kanínur hoppandi inni í stofunni sinni og gat ómögulega náð þeim og bað um aðstoð. Tók vakthafandi lögreglumaður þessu símtali með fyrirvara en sendi samt mann á staðinn. Kom í ljós í húsinu voru kanínur í öllum regnbogaslitum og að nágranninn, sem einnig er sérvitringur hafði gert sér að leik að lita feldinn á þeim 10 kanínum sem hann á. Á endanum náðist að safna þessum litríka hópi saman og fékk nágranninn sekt fyrir óþarfa ómak lögreglunnar og áminningu.

Klukkan 21:00 fór allt á fulla ferð á lögreglustöðinni, munir úr hillum hrundu niður á gólf og diskar og glös brotnuðu. Töldu vakthafandi menn að um jarðskjálfta væri að ræða en þegar þeir litu út til að kanna hvort skemmdir hefðu komið sáu þeir að enginn jarðskjálfti hefði verið.  Klesstur upp við húsið var flutningabíll af stærri gerðinni. Bílstjórinn hafði verið að snafsa sig ótæpilega og ekki gætt að sér hvert hann væri að keyra með fyrrgreindum afleiðingum. Lögreglumenn járnuðu drukkna ökumanninn og færðu í fangageymslur þar sem hann fékk að sofa úr sér. Flutningabílinn er mikið skemmdur og talinn óökufær. Óreglubílstjórinn var sviptur ökuréttindum og var kona úr þorpinu fengin til að lesa yfir honum pistilinn og látinn iðrast gjörða sinna.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.


Lögregludagbók

26.11.2007

Lögreglan  í Sandgerði.

Suddi og suðaustan 15 þennan morgunn. Varðstjórinn vant við látin, skrapp til Grindavíkur í létt spjall við kollega sína þar. Á 10 tíma barst lögreglu lítill böggul frá póstmanni bæjarins. Í honum voru myndbandsspólur frá síðustu árshátíð lögreglunnar. Hóað var í menn á frívakt og sest var fyrir framan imbann og glápt.  Jón frá Bjargi komst ekki vegna slæms hæls-særis en fékk hann sent heim ögn af bakkelsi og hlýjar kveðjur.

Klukkan 14:05 var uppþot í kjörbúð bæjarins, Bína fína frá Klofi lét öllum illum látum látum og heimtaði nýja hamsa. Unglingsræfillinn á kassanum var skelfingu lostinn og kallaði því á lögregluna. Á endanum fékk Bína fína hamsana sína og fór út í fússi.

Klukkan 15:00 barst lögreglu tilkynning um að einhverjir unglingar hefðu vanhelgað skilti sem á er merki bæjarins. Höfðu þessi ungmenni skrifað fúkyrði um stærstu stjörnu sem bærinn hefur hýst, Leoncie, ekki verður haft eftir það sem rostungurinn ,,sagði,,. Vitni gat gefið góða lýsingu á ódæðismönnum tveimur og hafði lögreglan fljótt upp á þeim. Þeir munu fá sekt kr. 15.000 að auki þurfa þeir að greiða eina menntaða ræstitækni bæjarins 50.000 fyrir að hreinsa skiltið. Talið er að þessir pörupiltar hafði lært af sínum mistökum og sögðust þeirra lofa að gera þetta ekki aftur.

Á 18:00 tíma barst lögreglu tilkynning um að lítil trilla hefði væri að landa óhefðbundnum ,,afla,, Bíll 14 var sendur niður á höfnina til að kanna málið. Í ljós kom að þetta væru færeyskir farandsölumenn sem voru að versla með notuð raftæki. Þeir hugðust selja þau í bænum og græða á tá og fingri. Þegar lögreglumaður bað um að fá að sjá tilskilin leyfi hrökkluðust þeir aftur um borð og héldu til sjávar. Telur lögregla það víst að þeir muni reyna fyrir sér annarsstaðar á landinu og sendi út fax til næstu bæja með góðri lýsingu á báti og mönnum.

Um kvöldmatarleytið barst lögreglu matarsending frá eina innflytjanda bæjarins. Sá er frá Indlandi og sendi hann sinn þjóðarrétt sem fór misvel í mannskapinn. Sumir eyddu restinni af vaktinni inni á náðhúsi stöðvarinnar. Þeir sem ekki voru svo lánssamir brúkuðu klósettin heima hjá sér. Þessi innflytjandi mun fá að heyra frá lögreglunni innan nokkurra daga og fær líklega sekt fyrir að tefja störf lögreglu.

Klukkan 22:00 var vaktin fullmönnuð á ný. Frá elliheimili bæjarins barst kvörtun vegna hávaða frá teiti í heimahúsi rétt hjá. Var haft eftir íbúa heimilisins að Satan sjálfur væri þar inni að skemmta sjálfum sér og hinum dauðu sálunum, slíkur var hávaðinn. Bíll 1 var sendur á staðinn. Kom það í ljós að húsráðandi var nýbúinn að fá stöðuhækkun og var að fagna henni með sínum nánustu kollegum. Var þeim sagt af vakthafandi lögreglumanni að minka hávaðan en það fór ekki betur en svo að einn af veislugestum gerði atlögu að lögreglumanni og veitti honum áverka á andliti með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið og lenti í kjöltunni á bæjarstjóranum. Mun árásarmaðurinn fá makleg málagjöld.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.


Lögregludagbók

Lögreglan í Þorlákshöfn

17.11.07

 Bræðslan byrjaði snemma þennan daginn, eða um 06:00 með sínum daun. Bíll númer 45 fór sína fyrstu eftirlits ferð um þorpið, enginn umferð og allt með kyrrum kjörum. Flækingsköttur sást í fjarska og talið er sá köttur hafi stolist inn um glugga og lagt sér til munns fisk sem var á eldhúsborði. Dýrafangari hefur verið settur í málið.

Klukkan 13:54 barst lögreglu símtal frá eldri konu sem hafði orðið vör við mannaferðir í garðinum sínum, fólk sem hún kannaðist ekki við. Bíll númer 45 fór í sitt annað útkall þennan dag. Kom það svo í ljós að nokkrir sauðdrukkin ungmenni höfðu gert sig heimkomin undir einum runnanum þar sem þau sváfu af sér áfengisvímuna. Stuggaði vakthafandi lögreglumaður við þeim og keyrði þeim heim til sín. Þynnkudraugur vitjaði þeirra sennilega.

Á 19 tíma barst lögreglu tilkynning um innbrot í lítinn bát sem rekið hafði upp í fjöru. Lögreglumaður furðaði sig á þessum fregnum því engin tilkynning hafði borist um bát sem hefði strandað. Bíll 12 var sendur á staðinn og kom þá í ljós að árabát hafði rekið upp í fjöruna og sælgætismola hefði verið rænt úr bátnum. Eigandinn, sem er 10 ára gat gefið góða lýsingu á ræningjanum. Málið er í rannsókn.

Klukkan 21:00 kom í hús Bóthildur Bragadóttir og var með sýnikennslu í bútasaum fyrir lögregluliðið. Engu var til sparað þegar kom að bakkelsi og voru á boðstólnum kökur, kleinur og ýmislegt annað góðgæti.  Mætingin var með eindæmum góð og er stefnt að gera þetta einu sinni á ári.

Lýkur dagbók lögreglunnar þann daginn.


Lögregludagbók

 Lögregluembættið í Surtsey.

15.11.07

Ekki mikið um mannaferðir, frekar en fyrri daginn. Allt með kyrrum kjörum. Einstaka mávur drap niður fæti og skildi eftir sig drit, þakkaði ekki fyrir sig.  Bátur lögreglunnar var ekki í besta ásigkomulagi og var sífellt að drepa á sér, miðstöðin léleg. Vakthafandi lögreglumaður skalf eins og lauf í vindi við löggæslustörf. Varð ekki var við mannaferðir í eynni, enda ekki leyfilegt. Bölvaði hann vinnu sinni í sand og ösku.´

Klukkan 18:00 sigldi lítil trilla framhjá eynni, um borð virtist vera mikill gleðskapur og vín var haft um hönd. Þrír kvenmenn sáust hanga yfir borðstokkin í annarlegu ástandi. Ekki er vitað hvað þær drukkur mikið af áfengi, en talið er það hafi verið umtalsvert.

Klukkan 21:00 var vakthafandi lögreglumaður var við stjörnuhrap. Óskaði hann sér að fá nýja og betri vinnu.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.


Lögregludagbók

Lögregluembættið í Fnjóskadal (Suður Þingeyjarsýslu)
12.11.07

Smá sama fer að lifna yfir bæjum sveitarinnar er bændur taka sig til og lýsa upp útihúsin. Undanfarin ár hefur það gengið stórslysalaust/án vandræða nema þann tólfta. Leppur Sig frá Stóru Stöng átti í stökustu vandræðum með 1000 ljósa seríu sem hann fékk á spottprís frá kóngsins köben þegar hann fór með frúnni í hina árlegu utanlandsferð. Hafi hann flækt sig svo illa í seríunni að beita þurfti rúningsklippum bæjarins til að losa hann úr hremmingunum. Leppur lét sér nægja aðventuljós þetta árið. Ekki fylgdi sögunn hvort ný sería verði keypt að ári.

Vakthafandi lögreglumaður gerði léttar jólahreingerningar á stöðinn og verðlaunaði sig með klementínum og jólaöli. Rólegt var fram að kaffitíma eða þegar síminn hringdi. Ingveldur frá Sátu var í basli með tvo sauðdrukkna bóksala sem vildu ekki fara út úr hennar bæ. Bíll númer 1 var sendur á staðinn til að verða við ósk húsfreyjunnar. Gekk vel að reka ódæðismennina úr kotinu.

Á leiðinni til baka á stöðina sá vakthafandi lögreglumaður mann í vegkantinum. Sá var í mikilli áfengismóki og gat ekki gert sig skiljanlega. Er hann nú sofandi en talið er að þetta sé presturinn sem leysa eigi af séra Engilbert á meðan hann heldur til Osló, í námsferð.

Það sem eftir lifði dags voru íbúar umdæmisins stilltir og prúðir eins og lömb og vakthafandi lögreglumaður náði að klára að stoppa í sokkanna sína sem eru nú eins og nýjir.


Lögregludagbók

Lögregluembættið á Borðeyri.
09.11.2007

Vakthafandi lögreglumaður byrjaði daginn á því að mæta seint til vinnu. Fyrir vikið fær hann að sjá um að stinga út úr kamri stöðvarinnar í eina viku. Tíðindalaust að eftirmiðdegi. Börkur Barkar lögreglumaður fékk heimsókn frá trúarsöfnuði á stöðina. Voru þeir að boða trú sína. Vakthafandi lögreglumaður vísaði þeim á dyr og sagðist ekki vilja heyra þeirra svokallaða guðsorð og bað þá vel að lifa, í farteski fengu trúboðarnir sjálfstætt fólk eftir Laxnes.

Klukkan 17:00 kom Guttormur viðgerðarmaður að kíkja á bílflota lögreglunnar. Pannan lak á landróvernum og hásingin var farin í Skódanum. Lagði Guttormur til að bifreiðunum yrði fargað hið snarasta og fengnir yrðu nýjir bílar. Sagðist hann vita um jettu ´95 árgerð og Cortinu 87 árgerð í toppstandi. Var boðinu vinsamlega hafnað og er nú hafin leit að nýjum bílum í flotann.

Um kvöldmatarleytið barst símhringing frá kjörbúð bæjarins og var skortur á mör. Silja í Silfurdal var á fullu í sláturgerð og var í ham en hafði misreiknað sig og vantaði ögn meiri mör. Vakthafandi lögreglumaður hringdi nokkur símtöl og notaði nokkra greiða og fékk á endanum mör. Í Þakklætisvott fékk stöðin 3 keppi af lifrarpylsu. Hún verður geymd fram að árshátíð lögreglunar.

klukkan 20:15 hringdi Arinbjörn frá Miðengi og kvaðst ekki sjá neitt á sjónvarpið sitt og væri að missa að Útsvari. Vakthafandi lögreglumaður bað hann vinsamlegast að hringja beint til rúv og fá svör þaðan og gaf honum áminningu fyrir að sólunda tíma lögreglunnar. Þess má geta að vakthafandi lögreglumaður sá Útsvar kristaltært og skemmti sér konunglega.

Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.


Lögregludagbók

Lögreglan í Hnífsdal

05.11.07

Mikið bar á ölvunarakstri í umdæmi lögreglunnar. Má það rekja til fjöldasamkomu hjá Grétu á Uppsölum. Þarna var mætt þotulið dalsins og var engu til sparað fyrir veisluna. Breska sinfóníuhjómsveitin mætti og spilaði nokkur lög yfir borðhaldinu. Þess má geta að haughúsi fjósins var breyt i glæsilegan og íburðarmikinn veislusal.

Runólfur fá Ystadal var einn af þeim tekinn var ölvaður undir stýri og var þetta hans þriðja brot. Vakthafandi lögreglumaður las yfir honum pistilinn og kvaðst Runólfur ætla að bæta ráð sitt. Fékk hann lögreglufylgd heim. Má hann búast við sekt.

Dagurinn var annars erilsamur. Á tíunda tímanum hringdi síminn á stöðinni. Rósa frá Lágabæ sagði að ein af gimbrum sínum væri föst í stórgrýti og þyrfti aðstoð sem fyrst. Olgeir var sendur á staðinn þar sem hann losaði gimbrina án nokkurra vandræða. Rósa skammaði gimbrina og rak hana inn í fjárhús þar sem hún hvílir nú.

Tveimur tímum seinna barst annað símtal. Það var Hörður frá Stöng. Mikil læti voru í húsinu og sagði Hörður að kona sín, Sigþrúður væri með hendur í hári Þrúðar. Þeim bar ekki saman um hvort kontórstingur  ætti rætur sínar að rekja til Noregs eða Svíþjóðar. Vakthafandi  lögreglumaður fór á veraldarvefinn og gúgglaði kontórsting. Komst að þeirri niðurstöðu að Norðmenn hefðu fundið hann upp. Allt féll í dúnalogn og Þrúður bauð vakthafandi lögreglumanni í skonsur og te.

Klukkan 16:00 sprakk kaffibolli á stöðinni. Olgeir hafði sett hann inn í nýja örbylgjuofninn og gætti ekki  efnisvalinu í bollanum. Uppi varð fótur og fit á stöðinni. Reyndist örbylgjuofninn  það laskaður að honum var hent. Mun andvirði hans vera tekið af launum Olgeirs með hans sátt. Telst málið upplýst.

Um kvöldmatarleytið sló rafmagninu út. Gréta hringdi trítilóð og spurði hvað illi þessu ástandi. Vakthafandi lögreglumaður hafði ekki nein svör önnur en að þetta hlyti allt saman að blessast. Gréta tók það svar ekki gilt og sagði að hún hefði ekki tíma fyrir svona vitleysisbull, hún var í óða önn að leggja lokahönd á stórveisluna.

Klukkutíma síðar eða um 20:00 koma ferðamaður inn á stöðina. Hann hafði villst af þjóðvegi 1 og hafði ekki hugmynd um hvar hann væri. Þar sem vakthafandi lögreglumaður var slappur í landafræði varð hann ferðamanninum ekki að nokkurri hjálp. Ferðamaðurinn sagði eitthvað á þýsku, virtist vera reiður og strunsaði út. Ekki spurðist meira til hans.

Fleira var það ekki þann daginn.


31.10.2007

 

Lögreglan í Grímsey

Fyrsti vetrarsnjórinn leit dagsins ljós. Eigandi einnar af tveimur bifreiðum í eynni átti í stökustu vandræðum með hemja hana og endaði á samkomuhúsi bæjarins. Ökumaður bifreiðarinnar hlaut engin alvarleg meiðsli en ekki er hægt að segja það sama um bifreiðina.

á 11 tímanum tapaði elsti íbúinn farsíma sínum sem hann fékk gefins eftir að fundist nær dauða en lífi í fjárhúsi sínu. Allt lögreglulið var sent í leitir og fannst farsíminn loks undir hægindastól þess aldraða. Í þakklætis vott fengu vakthafandi lögreglumenn heklaðar munnþurrkur.

klukkan 15:00 var von á landsþekktum skemmtikrafti í eyna. Vegna skíta veðurs tafðist ferjan en á endanum steig Herbert í land og skemmti eyjaskeggjum fram að miðnætti á stærsta pokaballi sem haldið hefur verið á eyjunni. Í farteskinu hafði Herbert 3 nærbuxur og eitt brjóstahald.

Á téðu balli var lítið um pústra en koma þurfti upp á milli Gerðar og Bertu er þær veittust af hvor annarri. Var þeim vísað út og hélt skemmtunin áfram vandræðalaust, fyrir utan nokkur texta klikk hjá Herberti.

Fleira telst ekki til tíðinda.

 


Lögregludagbók

 Lögregluembættið í Mjóafirði

25.10.07

Vindasamt mjög allan daginn. Snjólfur var vakthafandi lögreglumaður.

Hrólfur Káti frá Skúfslæk tilkynnti klukkan 05:30 að þakplötur hefðu losnað af hænsnakofanum og átti í stökustu vandræðum með að róa fiðurfénaðinn sem búinn var að fá nóg af vosbúð. Snjólfur mætti á staðinn og aðstoðaði þreyttan bóndann. Hænum heilsast vel og var ekki meint af téðri vosbúð.

Vakthafandi lögreglumaður stytti sér stundir með lestri á bókinni ,,þú hefur fullan rétt til að vera reiður,,

Klukkan 16:00 dró heldur betur til tíðinda því gamall skólafélagi kíkti inn í kaffi og fékk kandís og kruðerí með, í boði deildarinnar.

Á 18. tímanum hringdi síminn. Þar sem vakthafandi lögreglumaður var að riðja úr inni á salerni stöðvarinnar missti hann af símtalinu. Ekki er vitað hver hringdi því númerabirtir stöðvarinn er í lamasessi. Verður því fljótlega kippt í liðinn.

Rólegt var fram að næstu vaktaskiptum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband