Dagbók útigangsmanns

Elskulega dagbók...

Að vakna í morgun var eins og að fá blauta tusku í andlitið....Rögnvaldur í næsta pappakassa vaknaði með svo miklum látum að vatnið sem hafði safnast saman um nóttina skvettist allir yfir á mig, þar sem ég lá í mesta sakleysi. Eftir að hafa hreytt í hann nokkrum vel völdum fúkyrðum fór ég að huga að verkefni dagsins - að redda spíra fyrir helgina.

Ég hafði frétt af landasala sem hélt sig til í húsasundi ekki langt frá hegningarhúsinu (ég veit, skrítin staður til að stunda slíka iðju...) Hann er víst að lenda lítrinn á 1000 kr. og skrítla verður einn að fylgja, því hann hefur svo gaman af því. Það gengur yfirleitt vel hjá mér að aula út úr mér einhverjum ósóma, fæ altjént minn spíra, og ekki kvarta ég yfir því.

Það koma tíma sem ég hugsa um að bæta mig, hætta þessu bulli, fá mér vinnu - ég er tilbúinn í allt! Allt segi ég....en það eru fáir sem vilja ráða drykkjumann sem hefur verið blautur frá unglingsárum. Tennurnar brunnar og fingur gulir af miklum reykingum. Væri helst til í að komast eitthvert út á land, á góða vertíð. Ég held það bara...svei mér þá. Fá að svitna við vinnu, ekki hlaup undan lagana vörðum. Skil ekki afhvejru maður má ekki skvetta úr skinnsokkinum utandyra þegar kallið kemur. Fólk í dag eru hinar mestu teprur upp til hópa.

Nóttin sem á víst að vera svakalega menningarleg var nú um helgina...fuss og svei....gef nú ekki mikið fyrir það. Fólk um allan bæ eins og sardínur í dós, drekkandi frá sér allt vit - og hafa ekki einu sinni rænu á að bjóða mér sopa! Fólk gaukar að manni einstöku athugasemd um hvort það sé ekki kominn tími til að bæta ráð sitt og taka aðeins til.....Langar mest til að segja því fólki að fara til Satans.

Ég er loksins laus við lúsina úr helvítis hausnum. Það er nú meiri vargurinn, þessi fjandans lús. Þetta er árelgur viðburður hjá okkur öllum, skrattakollurinn hann Svenn kemur með þetta með sér frá útlandinu. Botna ekkert í því hvernig hann hefur efni á að fara erlendis á hverju ári..held hann eigi velstæðan son..

Þegar ég rita þessi orð sit ég á bekk í Kringlunni. Þeir leyfa mér enn að hafast við hérna þegar veðrið er ekki upp´á marga fiska. Ég er heppinn....öryggisvörðunum er ekki vel við okkur útigangs fólkið. Sjá þessa ofdekruðu krakka út um allt. Ég á engin börn. Sakna þess ekki.Allt of mikil fyrirhöfn.

Jæja, nú á að fara að loka Kringlunni og ég verð víst að fara. Hendi bréfinu í póst og sendi til Hróðmars frænda. Hann er svo góður að halda úti fyrir mig að pikka þessa vitleysu mína í tölvuna sína sem hann síðan varpar á bloggsíðuna mína.

Bless í bili. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband