Gull hafsins

Á lítilli eyju sem fáir þektu bjó flokkur af fólki sem kallaði sig Olla. Flokkur þessi lifði aðallega á fiski sem það veiddi í þar til gerum pollum. Þessir fiskar voru engin smásmíði eða um tveggja metra langir með þykkt og mikið hreistur sem erfitt var að verka. Þeir voru í mörgum litum en algengasti liturinn var rauður.

Sú saga hafði gengið um landið að einn smali hefði séð fisk sem var gylltur. Var smalinn ekki tekinn trúanlegur þar sem hann gekk ekki heill til skógar. Málið var því kæft í fæðingu. Smalinn trúði því að hann hefði séð þennan fisk og hékk fyrir framan pollinn dögum saman, í von um að sjá þennan fallega fisk sem átti víst ekki að vera til.

Eyjaskeggjar höfðu áhyggjur af smalanum og sendu seiðkarlinn til að ræða við hann og koma þessu út úr kollinum á honum. Seiðkarlinn vildi vera í næði með smalanum. Þeir sátu tveir og spjölluðu um daginn og veginn. Loks kom seiðkarlinn sér að efninu og spurði hvort hann hefði í raun og veru séð téðan gullfisk. Smalinn sagðist sko heldur betur halda það og vildi ekki víkja frá pollinum.

Seiðkarlinn varð óróglegur og sá að hann var ekki að ná til smalans með malinu einu saman. Hann ákvað því að bregða á það ráð að leggja á hann álög. Álög sem mundu telja honum trú að þessi fiskur væri ekki til. Seiðkarlinn fór að þylja upp eitthvað sem smalinn skildi ekki. Smalinn varð hræddur og stóð upp og tók tvö skref afturábak.

Smalinn gætti ekki nógu vel að sér og féll í pollinn með miklum gusugangi. Seiðkarlinum brá svo mikið að hann rak upp skaðræðis öskur. Eyjaskeggjar heyrðu það vel og komu askvaðandi að pollinum. Ekkert bólaði á smalanum – eyjaskeggjar töldu hann af og héldu athöfn sem þótti við hæfi.

Lífið gekk sinn vanagang næstu daga og vikur. Pollurinn var talinn pyttur djöfulsins og var stranglega bannað að koma nálægt honum, hvað þá að veiða sér til matar í honum. Eyjaskeggjar óttuðust pollinn, sögðu að andi smalans væri þar á kreiki ósáttur við að enginn skuli hafa trúað honum á sínum tíma. Seiðkarlinn hafði enn ekki náð sér eftir þennan atburð og hélt sig mestmegnis innandyra þar sem hann sinnti sínum skildum gagnvart samfélaginu.

Það var svo einn sólríkan dag sem tveir piltar voru að leik og sáu svo pollinn sem þeir höfðu verið hræddir með fyrir nokkrum dögum síðan. Um þá greip hræðsla en þeir mönuðu hvorn annan upp og gengu að pollinum, - löturhægum skrefum.Þegar annar drengjanna ætlaði að snúa við sá þeir hlut sem þeir höfðu aldrei séð áður. Upp úr pollinum skreið fiskur. Hann hafði fjóra fætur í stað ugga og var hálfur fiskur og hálfur maður. Strákarnir urðu svo hræddir að þeir gátu sig hvergi hreyft og sáu skepnuna nálgast.

Skyndilega fór hún að tala, sagði strákunum að óttast ekki, heldur fara í þorpið og segja þorpsbúum að smalinn væri kominn aftur. Strákarnir róuðust aðeins og hlupu eins hratt og þeir gátu til þorpsins og sögðu tíðindin. Enginn trúði þeim. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðfinnur Þorvaldsson

Sei sei, þvílíkt ótraust! Litlir saklausir piltar málaðir lygarar!

Guðfinnur Þorvaldsson, 23.1.2008 kl. 12:27

2 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

..framhald í næsta bloggi?

Guðríður Pétursdóttir, 23.1.2008 kl. 16:20

3 Smámynd: Vignir

Guffi - jájá.......svona er þetta

Guðríður - Það gæti bara vel verið að ég bæti við þessa sögu...

Vignir, 23.1.2008 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband