17.10.2008 | 17:33
Lögregludagbók
Lögreglan í Þorskafyrði
17.10.2008
Lögreglunni barst tilkynning 07:15. Gamall maður hafði staðið ungan dreng að því að teika bíl. Þetta þótti honum alveg til háborinnar skammar og krafðist þess að haft yrði upp á téðum dreng og lesið yfir honum pistillinn. Bætti hann svo við í lokinn að hann væri gall harður sjálfstæðismaður og að Davíð væri dýrlingur.
Tíðindalaust var til hádegis. Tveir bílar rákust saman á plani stöðvarinnar. Um var að ræða aldraða konu í fólksbíl og ungan dreng á spánýjum sportbíl. Sú gamla þrætti fyrri að vera í órétti og brást illa við þegar lögreglumaður kom á staðinn. Ungi drengurinn hélt ró sinni og kveikti sér í rettu til að róa taugarnar. Sú gamla kvartaði undan brælunni og bað hann um að drepa í. Ungi maðurinn lét sem hann heyrði ekki bón gömlu konunnar og gerði í því að blása í átt að henni reyknum. Málalok urðu þau að tjónaskýrsla var gerð og reiðin rann af þeirri gömlu.
Tilkynning frá banka bæjarins barst klukkan 14:04. Bankastjórinn tilkynnti að sturlaður maður væri með óráði í bankanum, baðaði út örmum og þóttist vera belja - með tilheyrandi hljóðum og sóðaskap. Bíll númer 2 var sendur á staðinn, geðlæknir bæjarins var með í för.
Venni trillukarl datt útbyrðis frá báti sínum og féll í kaldan sjóinn. Til allrar hamingju var báturinn bundinn við bryggju og vel tókst að húkka hann upp á þurrt. Hrólfur í lönduninni stökk til og sótti heitt kaffi og bakkelsi. Venni var fljótur að ná sér og heilsast vel.
Gleðisveitin Káta geitinauglýsti á auglýsingatöflu bæjarins stórtónleika um kvöldið, einnig verður boðið upp á sviðahausa. Viðbúnaðarstig 3 var sett á í tilefni þessa atburðar. Játvarður Hekk var fenginn til að standa við dyrnar.
Klukkan 15:34 valt vöruflutningabíll út af veginum rétt fyrir utan bæjarmörkin. Rolla hljóp í veg fyrir bílinn með þeim afleiðingum að bílstjórinn missti stjórn á bílnum. Farmurinn var 2 tonn af sviðahausum. - Kaldhæðni.......?
Fleira var ekki skráð í dagbók lögreglunnar þennan dag.
Flokkur: Lögregludagbók | Facebook
Athugasemdir
hahahaha, snilld
Snorri Þorvaldsson, 19.10.2008 kl. 12:56
Gódur frændi
ingo (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 21:11
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2008 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.