4.12.2007 | 17:57
Lögregludagbók
Lögreglan í Gilsfirði
04.12.2007
Dagurinn byrjaði með rifrildi vakthafandi lögreglumanna. Upp kom ágreiningur um hvort væri betra að vera örvhentur eða rétthentur. Engin niðurstaða fékkst í málinu en þeir lokuðu umræðinni með sjómann. Sá rétthenti vann.
Á tíunda tímanum bankaði ung stúlka á dyr stöðvarinnar. Hafði hún meðferðis í lítilli lyftiduftsdollu 3 sandlóu egg sem henni var annt um að koma á ofn í hlýju. Vakthafandi lögreglumaður brosti breitt og tók fús við eggjunum og sagðist ætla að gæta þeirra vel og sú litla gæti fengið að koma reglulega til að fylgjast með gangi mála. Vakthafandi lögreglumaður gaukaði að henni endurskinsmerki og glitauga.
Um hádegi hringdi síminn á stöðinni. Það var Guttormur á Grænalæk. Átti hann í stökustu vandræðum með ISDN línuna sína, sagði að allt væri í tómu voli og hann þyrfti á aðstoð að halda undir eins. Lögreglumaður tjáði honum að þetta væri alls ekki í verkahring lögreglunnar og bað hann vinsamlegast að hætta að sólunda tíma lögreglunnar í óþarfa bull.
Olga frá Saurbæ staulaðist rallfull inn á stöð og bað um heitan grjónagraut, því hún kvaðst hafa fundið lykt af slíkri dásemd frá götunni. Grjónagraut fékk hún ekki en í staðinn var henni úthlutað hlýju rúmi í klefa til að lúra í. Hún yfir gaf stöðina snemma í morgunn, heilsutæp þó. Bíll 1 var fenginn til að transporta henni heim í hlað, restina af leiðinni þurfti hún fara fótgangandi.
Um 19:00 pöntuðu vakthafandi lögreglumenn flatböku frá Unni á Stapa. Flatbakan var greidd úr dósasjóð stöðvarinnar, og allt vandlega skráð í þar til gerða ráðstöfunarbók fyrir dósasjóðinn. Fatbakan var gómsæt og mettandi. Unnur kom sjálf með veigarnar á gömlum Fíat, sennilega árgerð '55 - eða 56'. Benti vakthafandi lögreglumaður Unni á að önnur framluktin var í lamasessi. Þakkaði Unnur fyrir vinsamlega ábendingu og kvaðst ætla að bæta það í snarhasti.
Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.
PS. þess má geta að hægt er að lesa brot úr síðustu dagbók í mogganum í dag
Flokkur: Lögregludagbók | Facebook
Athugasemdir
Ljómandi lesning í skammdeginu kemur mér alltaf í gott skap,er hrifnastur af bifreið Unnar í Stapa.
Brúsi (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 19:07
kúl kúl,kannski færu fastráðningu sem pistlahöfundur...
þetta er skemmtilegra en margt annað í mogganum sko
það er sagt að þeir sem eru örvhentir séu síður skarpari en þeir sem eru rétthentir..
því trúi ég tæplega þar sem pabbi er örvhentur..
Guðríður Pétursdóttir, 5.12.2007 kl. 00:07
En Guðríður, það gæti leynst sannleikskorn í þessu. Ég meina, Vignir er örvhentur...
Nei nei, bara smá spaug
"Átti hann í stökustu vandræðum með ISDN línuna sína, sagði að allt væri í tómu voli og hann þyrfti á aðstoð að halda undir eins."
Eitthvað segir mér að þetta sé byggt á persónulegri reynslu í starfi?
Guðfinnur Þorvaldsson, 5.12.2007 kl. 01:49
Guðríður - veit ekki hverju ég að svara þér ;o)
Guffi - nei, þetta er ekki byggt á persónulegri reynslu úr starfi en gæti hins vegar alveg verið það.... ;-)
Vignir, 5.12.2007 kl. 06:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.