3.12.2007 | 11:14
Lögregludagbók
Lögregluembættið í Bleiksmýrardal
03.12.2007
Síðustu 2 mánuði hafði enginn sinnt löggæslu í þessu umdæmi. Það ástand var ekki látið viðgangast og fenginn var löggæslumaður frá Fnjóskadal. Tíðindalaust var bróðurpartinn af deginum. Einstaka bíll keyrði framhjá lögreglustöðinni. Um 16:00 staðnæmdist bíll við stöðina, ökumaður bifreiðarinnar hafði villst af leið og talaði ekki góða íslensku. Lögreglumaðurinn taldi það meira en líklegt að um Norðlending væri að ræða og sýndi honum fullan skilning.
Á sjötta tímanum var samkoma í félagsheimili. Kjósa átti í nýja bæjarstjórn. Loki frá Illugastöðum bauð sig fram í annað skiptið og var kjörinn bæjarstjóri. Eiríkur Laufdal fékk einungis 6 atkvæði. Engar óspektir voru á kjörstað og fór allt friðsamlega fram. Vakthafandi lögreglumaður raðaði í sig bakkelsi og kruðeríi með bestu lyst og fékk með sér á stöðina 5 sykraðar pönnukökur og kaffi á brúsa.
Kýrin Huppa tók upp á því að bera um kvöldmatarleytið. Bóndinn á bænum Holti var í bændaferð með húsfreyju sinni og var ungur maður fenginn til að sjá um búið. Var hann í stökustu vandræðum með taka á móti kálfinum og bað um aðstoð lögreglunnar. Það var lán að vakthafandi lögreglumaður var mikið í sveit á sínum yngri árum og kunni upp á hár hvernig ætti að bera sig að. Heilsast kálfi og kusu vel. Lögreglumaður vígði sturtuaðstöðu stöðvarinnar að athöfn lokinni. Setti út á hve lélegt vatnsrennslið var.
Um 21:00 snaraði vakthafandi lögreglumaður upp seríu á stöðina og eins seríu setti hann í glugga. Stakk sig á teiknibólu og gerði að sárum sínum samviskusamlega. Telur hann líklegt að sárið muni gróa vel.
Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.
Flokkur: Lögregludagbók | Facebook
Athugasemdir
"...ökumaður bifreiðarinnar hafði villst af leið og talaði ekki góða íslensku. Lögreglumaðurinn taldi það meira en líklegt að um Norðlending væri að ræða og sýndi honum fullan skilning."
Hahah, þetta er frábært!
Guðfinnur Þorvaldsson, 3.12.2007 kl. 12:40
Takk
Vignir, 3.12.2007 kl. 14:18
vonandi heilsast manninum vel eftir teiknibóluslysið...
Guðríður Pétursdóttir, 3.12.2007 kl. 16:01
Flott færsla þarna vildi eg búa þetta er algjör snilld.
Brúsi (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 18:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.