29.11.2007 | 12:41
Lögregludagbók
Lögreglan á Hólmavík
29.11.2007
Þeysireið hestamannafélagsins Bikkjan fór friðsamlega fram. Lítið var um ölvun þetta árið en þó mátti finna inn á milli nokkra sauðdrukkna vesaling sem náði að halda sér á baki með að fylgja hreyfingum hestsins. Lögreglan var með mikinn viðbúnað og fylgdi eini bíll sveitarinnar stóðinu eftir með miklum sóma. Fékk lögreglumaður sérstaka þjálfun í að keyra í návígi hesta. Nokkuð var um að hestamenn buðu lögreglumanni gráan.
Tíðindalaust var til 15:00 eða þangað til að lögreglan var kölluð að samkomuhúsi bæjarins. Hafði þar safnast saman hópur af erlendum ferðamönnum sem hafði villst af leið sinni til Hermannslundar í fuglaskoðun. Voru þeir ansi æstir og pirraðir og gerðu aðsúg að lögreglumanni sem kom á vetfang. Fararstjórinn var hvergi sjáanlegur en talið er víst hann hafi einni villst frá hópnum á undraverðan hátt. Ekki náðist í hann en lögreglan útvega lítinn kálf fyrir viltu ferðamennina. Húsvörður heimilisins vissi ekki hvað var um að vera og gat ekki tjáð sig við ferðamennina sökum slakrar kunnáttu í sænsku.
Einn af sérvitringum bæjarins hringdi inn á stöð á sjöunda tímanum og kvaðst sjá grænar kanínur hoppandi inni í stofunni sinni og gat ómögulega náð þeim og bað um aðstoð. Tók vakthafandi lögreglumaður þessu símtali með fyrirvara en sendi samt mann á staðinn. Kom í ljós í húsinu voru kanínur í öllum regnbogaslitum og að nágranninn, sem einnig er sérvitringur hafði gert sér að leik að lita feldinn á þeim 10 kanínum sem hann á. Á endanum náðist að safna þessum litríka hópi saman og fékk nágranninn sekt fyrir óþarfa ómak lögreglunnar og áminningu.
Klukkan 21:00 fór allt á fulla ferð á lögreglustöðinni, munir úr hillum hrundu niður á gólf og diskar og glös brotnuðu. Töldu vakthafandi menn að um jarðskjálfta væri að ræða en þegar þeir litu út til að kanna hvort skemmdir hefðu komið sáu þeir að enginn jarðskjálfti hefði verið. Klesstur upp við húsið var flutningabíll af stærri gerðinni. Bílstjórinn hafði verið að snafsa sig ótæpilega og ekki gætt að sér hvert hann væri að keyra með fyrrgreindum afleiðingum. Lögreglumenn járnuðu drukkna ökumanninn og færðu í fangageymslur þar sem hann fékk að sofa úr sér. Flutningabílinn er mikið skemmdur og talinn óökufær. Óreglubílstjórinn var sviptur ökuréttindum og var kona úr þorpinu fengin til að lesa yfir honum pistilinn og látinn iðrast gjörða sinna.
Fleira taldist ekki til tíðinda þann daginn.
Flokkur: Lögregludagbók | Facebook
Athugasemdir
Hver færsla er fjörugri en sú fyrri! Líst vel á þróunina. Bestar fannst mér kanínurnar!
Guðfinnur Þorvaldsson, 29.11.2007 kl. 13:06
Takk takk
Vignir, 29.11.2007 kl. 14:39
Ljómandi lesning og ég er sammála Guðfinni, meira sona.
Brúsi (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 19:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.