21.11.2007 | 10:20
Tveir gamlir menn sitja á bekk og spjalla
- Nei komdu sæll lagsmaður! Viltu ekki tylla þér hérna við hlið mér á þessum forláta bekk, ég er búinn að sitja hérna svo lengi án þess að nokkur komi og setjist hjá mér. Fuglarnir hafa haldið mér félagsskap.
- Ert þetta þú Hróar? Ég hef nú ekki séð þig háa herrans tíð, vitaskuld sest ég hjá þér og spjalla eilítið við þig. Ég var að koma úr sundi, ansi hressandi svona snemma dags að sprikla í vatninu, jájá, það held ég.
- Hvað er að frétta af henni Bertu, er hún ekki alltaf hress? Ég bara man ekki hvenær ég sá hana síðast.
- Hún Berta er nú skilin við mig, hún fann sér miklu yngri mann, þú manst eftir honum Óttari í Kríuskarði suður í Múlasýslu?
- Er það kauðinn sem var næstum búinn að skjóta mig með kindabyssu? Það helvítis fífl? Ég mun sko segja honum til syndanna er ég næ í hnakkadrambið á honum skal ég þér segja.
- Rétt til getið hjá þér, sá er nú maðurinn. Skil ekkert hvað hún sér við hann. En sjálfur er maður ekki af baki dottinn ennþá. Ég kyntis á síðustu föndurstund glæsilegri konu úr vesturbænum.
- Detti mér nú allar.......segðu mér nú frá henni.
- Á sínum yngri árum var hún íslandsmeistari í svartapétri og var send til Færeyja til að keppa á heimsmeistaramótinu, svo fór að hún lenti í örðu sæti vegna þess að sú sem vann svindlaði mikið. Áslaug. Hún heitir Áslaug og er ættuð frá Raufarhöfn.
- Hvúr ræ karlinn! Ég er einmitt í tygjum við konu frá Raufarhöfn sem heitir líka Áslaug! Furðurlegt hvað heimurinn er lítill!
Fleira fór ekki þeirra á milli, gesturinn stóð upp, löðrungaði gestgjafann og hélt sína leið.
Athugasemdir
Skemmtileg færsla, ástarþríhyrningar eru til hjá öllum aldursflokkum!
Guðfinnur Þorvaldsson, 21.11.2007 kl. 11:48
Takk fyrir Guffi ;o)
Vignir, 21.11.2007 kl. 11:55
híhí, algjört svikaellismellakvendi
Guðríður Pétursdóttir, 21.11.2007 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.